Það er orðið helvíti langt síðan ég nennti að blogga hérna enda hef ég ekkert haft neitt merkilegt að segja og í rauninni hef ég heldur ekkert merkilegt að segja í dag enda er ég ekki merkilegur maður yfir höfuð. Annars fór ég á mjög merkilega mynd í gær sem heitir Englar Kalla. Þetta fannst mér merkilega ágæt skemmtun þrátt fyrir merkilega miklar hetjudáðir frá þeim þremur íturvöxnu leikkonum fara á kostum í þessari merkilegu mynd. Það merkilegasta fannst mér þó að Demi Moore fannst mér vera flottust af þeim öllum þrátt fyrir að ná þeim merkilega aldri sem 40 ár er.
Merkilegur leikur er á eftir. Fylkir mætir þar Valsmönnum á Hlíðarenda kl 19:15 og hvet ég öll merkikerti að mæta.
Í gær vann ég einnig sömu merkilegu verðlaunin sem Doddi fékk fyrir nokkrum dögum í svona pop-up auglýsingu á netinu, en ég ákvað að spara mér merkilegar 40 mín af lífi mínu og hringdi ekki í númerið sem gefið var upp.
Pétur Jóhann Sigfússon frá hinni merkilegu útvarpsstöð FM957 hringdi í mig í gær og bað mig að kommenta á það að hinn merkilegi Guðni Bergsson væri hættur knattspyrnuiðkun. Svaraði ég honum stuttlega og síðan ákvað hann að spila eitthvað fótboltalag fyrir mig í símann ( og aðra hlustendur kannski líka ?????) og lagði ég frá mér símann á meðan og leyfði Hilmari að hlusta á þetta merkilega fallega lag. Þegar ég tók símann til baka heyrðist "halló, halló" og síðan var skellt á og hélt hann greinilega að ég hafði skellt á. Merkilegt og spennandi símtal ekki satt?
Fleira var það ekki í merkilegum fréttum í dag.........veriði sæl.
posted by Hrafnkell |
12:28
þriðjudagur, júlí 08, 2003
Nú vil ég semja brag,
um nokkuð sem ég hata í dag.
Þetta ljóð er samið í Notepad,
í samanburði við Word er það Autocad.
Gates má fara norður og niður,
í ritvinnslu lélegur - því miður.
Ó, hvað ég hata Word,
helvítis microsoft Word,
segir stoltur tölvunörd
posted by Doddi |
09:37
mánudagur, júlí 07, 2003
Ferðavinningur
Í gegnum árin hafa hundruð auglýsinga og tilboða poppað upp á netinu hjá manni án þess að maður hafi gefið þeim gaum. Mörgum sinnum hefur komið tilkynning um að maður sé búinn að vinna eitthvað en alltaf hefur maður lokað á slíka hluti........ þar til í gærkvöldi. Ég var á heimasíðu sem ég hef skoðað reglulega (www.starseeker.com) og hefur verið laus við popup auglýsingar og hvorki komið með nein gyllitilboð né aðrar auglýsingar. En í gærkvöldi kom allt í einu gluggi sem sagði að ég væri 15.000.000-asti heimsækjandi síðunnar og að ég væri búinn að vinna mér inn ferðavinning upp á 1600 dollara og Bahama-eyja siglingu. Í fyrstu vaknaði upp þessi venjulegi hugsunarháttur og ég ætlaði að fara að loka glugganum eins og alltaf, en þá fékk ég einhverja bakþanka. Hvað ef þetta væri satt? Það var gefið upp símanúmer, gjaldfrjálst fyrir US en utanlandsgjald fyrir aðra og sú skýring gefin að svo lítið væri að gera á hótelum núna að þau vildu fá ferðamenn í herbergin fyrir nánast engan pening. Eftir að hafa ráðfært mig við systur mína og mág ákvað ég að slá til og hringja í þetta númer. Það svaraði svona týpísk kanakelling með commercial-rödd og eftir að hafa beðið um staðfestinganúmer fór hún að lesa upp það sem mér stóð til boða. Ég átti semsagt að hafa unnið peningagjöf upp í ferð fyrir fjóra til Flórída; fjórar nætur í Orlando, þrjár í Daytona, sigling til Bahama-eyja í Karabíahafinu og fjórar nætur þar, og fjögurra nátta gisting í Las Vegas. Allt þetta fyrir fjóra átti ég að fá fyrir einungis 700 dollara (uþb 50000 kr). Flugið til USA þurfti ég að greiða sjálfur. Ég held ég hafi haft hana í um 40 mínútur í símanum á meðan ég var að reyna að komast til botns í þessu og fá allar upplýsingar. En þegar hún sagði að ég yrði að ákveða þetta í þessu sama símtali og gefa upp VISA-númer þá hætti mér að lítast á blikuna. Ég hringdi í pabba úr öðrum síma og sá gamli sagði ákveðið: "Þú segir bara bless! Strax!" Ég var sammála honum og sagði við konuna að ég væri hættur við. Hún var mjög hissa (hmmm týpískt) og þar með lauk þessu ævintýri. Hver veit, kannski missti ég af þrusuferð fyrir fjóra á gjafaverði. En að gefa manni ekki tíma til að hugsa hlutina og fara yfir málin í nokkra daga áður en ákvörðun er tekin býður ekki upp á neitt nema vekja grunsemdir hjá manni.
Eins og sagt er í uppáhalds bíómyndinni minni, Conan the Barbarian:
"Engum í þessum heimi skaltu treysta, hvorki mönnum, konum né dýrum......" Ég held að það sé ágætis regla í heimi viðskiptanna.
posted by Doddi |
08:29