Hilmar Steinþórsson lenti í óvenjulegri lífsreynslu nótt eina í síðustu viku. Hann vaknaði upp við vondan draum milli kl. 3 og 4 um nóttina. "Ég hrökk upp við hávaða sem barst úr stofunni og hélt að þar væri innbrotsþjófur á ferð. Frúin er nú venjulega vön að redda svona málum en þar sem hún var ekki heima þorði ég hvorki að hreyfa legg né lið. Þetta var mjög óþægilegt, því ekki minnkaði hávaðinn og mér fannst eins og barið væri á gluggana. Ég ætlaði að innbrotsþjófur myndi ekki hafa svona hátt," sagði Hilmar, sem bjóst engu að síður við því versta. Hann sagðist ekki hafa vitað við hverju var að búast, en vissi að hann þurfti að manna sig upp í að ráðast til inngöngu í stofuna.
Við blasti óvenjuleg sjón
"Þegar inn í stofuna kom blasti við mér óvenjuleg sjón, það hafði verið skilinn eftir opinn gluggi. Vindurinn feykti til skrauti sem hékk í glugganum og það lamdist utan í glerið með tilheyrandi hávaða."
Meig á sig úr hræðslu
Hilmar var nokkuð skelkaður eftir þessa lífsreynslu og meig meðal annars á sig úr hræðslu. Hann sagðist ekki hafa náð að sofna aftur eftir ævintýri næturinnar. "Ég vaknaði ósofinn um morguninn." Ekki er vitað hvernig hann fór að því að vakna ósofinn, en getgátur eru um að þetta hafi einungis verið draumur hjá honum. En hann bætti við kíminn á svip að af þessari reynslu hefði hann lært að ekki væri rétt að hleypa frúnni að heiman nema að vel athuguðu máli.
posted by Doddi |
09:59