Ég var að koma úr mínum síðasta fyrirlestri í BS. náminu, og verð ég að segja að það var svolítið sérstök tilfinning. Ég á einn verklegan tíma eftir á morgun og svo get ég sagt skilið við þessa byggingu held ég bara. Bara nokkur próf eftir og ég get loksins farið að smíða nýja svarta kassann minn (sem mun, eins og þið vitið, færa mér vald yfir alheiminum).
Páskagleði
Ég gerði tilraun til þess að búa til páskaegg með krökkunum um helgina..... almættið forði ykkur frá slíku!!! Ég sá svoleiðis í Ísland í bítið um daginn og féll fyrir lymskulegum orðum þeirra sem voru að kynna græjur til slíks brúks. "Þetta er svo auðvelt," sagði kellingin, "það er auðvelt að losa úr mótunum og svo er hægt að bræða súkkulaðið bara aftur ef þetta mistekst!"
Ég fór í kellingabúðina Pipar og Salt (sem eflaust er ágætis búð svosem) og borgaði litlar 3000 krónur fyrir þetta plastdrasl. Ég gat eiginlega ekki hætt við þar sem ég var búinn að hafa fyrir því að fara þarna niðureftir. Ég keypti síðan súkkulaði í massavís og byrjaði svo að bræða með mikilli tilhlökkun. En það breyttist fljótlega í martröð. Þetta var ömurlega glatað! Það þurfti svona fimm plötur í eitt egg og það var ekki möguleiki að ná því úr mótinu þegar það var storknað!
"Þetta er svo auðvelt! Maður getur haft eggin þykk eða þunn eða hvernig sem maður vill!" :-( :-O AAaarggh!
Ef maður reyndi að hafa þetta þunnt þá fór það í klessu þegar maður ætlaði að taka það út. Ef það var þykkt þá var lak súkkulaðið í botninn og skildi allt annað eftir þunnt. Aaaaghaaarghhghg! Ég eyddi fjórum klukkutímum í þetta drasl og reyni það aldrei aftur! Að auki var hvert egg orðið dýrara en jafn stórt egg í Bónus - fyrir utan kosnaðinn á plast-sorpinu sem ég keypti.
En við gerðum annað sem var öllu skemmtilegra. Við bjuggum til egg á gamla mátann, þ.e. götuðum hænuegg, blésum úr þeim og lituðum með tússpennum. Það bjargaði deginum, og að auki er það ekki eins fitandi og hitt draslið.
Vááá ég er farinn að hljóma eins og föndurkallinn í Spaugstofunni: "Þið getið svosem málað eggin bara beint, en þá mygla þau kannski, en það er svosem allt í lagi því þetta er hvort eð er svo myglað og leiðinlegt." - Alveg frábær karakter
posted by Doddi |
10:25