miðvikudagur, september 08, 2004
Smá report héðan frá meginlandi Evrópu, erum komnir til Þýskalands til Heiðars bróður pabba sem býr skammt frá Dusseldorf. Hann tók höfðinglega á móti okkur og núna sitjum við og bíðum eftir að Ísland - Ungverjaland byrji, en hann er sýndur á einhverri þýskri sjónvarpstöð.
Vorum í Vín í nokkra daga eftir "adventure-ferðina" í Ölpunum. Buxurnar eru á hælunum á mér núna og beltið á þrengsta gati, en ég léttist um u.þ.b. 4 kg í fjöllunum. Var að vigta bakpokann minn og hann er 17-18 kg, sem er tómt rugl fyrir svona ferð. Gengum 83 km leið upp og niður fjöll og fyrnindi (mestallt kletta og grjótuga stíga), samtals 6238 m upp og 6160 m niður. Hæsti punkturinn var 3160 m, skarð sem við fórum um í snjókomu og þoku. Það var dálítið undarlegt að sofa í þessari hæð, því maður var móður og másandi í algjörri hvíld út af þunna loftinu. Púlsinn, sem venjulega er í 60 slögum á mínútu, var í svona 90-100 slög/mín þegar mest var. Það var eins og maður væri að hlaupa sér til svefns.
Semsagt gott
Fékk ágætis fréttir fyrir tveimur dögum síðan þegar ég var í Vín, fékk að vita að ég hafi fengið 6.0 í stærðfræðigreiningu IVB - síðasta prófinu mínu - sem þýðir að ég fæ að útskrifast í október. Einkunnin er framar mínum fremstu vonum verð ég að segja. Ég get því bara sagt þetta semsagt gott í bili.
Ég heyri að leikurinn er byrjaður!
Sé ykkur í næstu viku!