Þann 6. maí ákváðum við strákarnir að gefa Hilmari ferð í Rafting í Austari-Jökulsá í Skagafirði en það var ekki fyrr en um síðustu helgi sem við fórum loksins í ferðina. Haldið var af stað á föstudagskvöldi (aðeins á eftir áætlun) og ákváðum því að gista bara í sveitinni minni sem er í Vestur-Húnavatnssýslu. Vaknað var snemma á laugardagsmorgninum eftir ágætis svefn (enda fengu flestir sér mjólk að drekka áður en farið var að sofa)til að vera mættir á staðinn klukkan 9. Eftir að búið var að halda öryggisatriðafund þá var farið að klæða sig og var það ekki auðvelt verk enda búningarnir afar þröngir. Um klukkustundarakstur var upp að ánni, síðan var farið yfir skipanir, hvernig á að bjarga úr ánni osfrv og síðan var lagt af stað. Ég held að ég geti sagt fyrir hönd okkar allra að þetta var geðveikt gaman, frábært veður og ótrúleg upplifun. Góðar flúðir og fossar, hringiða, hoppað af háum kletti,lent undir bátnum, týndum bátsfélögum, skvettur og sundsprettur í ánni gerðu þessa ferð ógleymanlega.
Við komum aftur um klukkan 16 að Bakkaflöt, fórum þar í sund og heitan pott með einn kaldann. Af því loknum fórum við á Sauðárkrók og tjölduðum þar, borðuðum kvöldmat, spiluðum frisbee-strandblak og póker, Tryggvi tók fullt af pissumyndum og síðan var endaði Doddi á 800 metra hlaupi á tíma þar sem hann hafði tapað pókernum með glæsibrag.
Að lokum var tekið smá djamm á Króknum og haldið heim á leið á sunnudeginum. Sem sagt algjör snilldarferð.