Ég tók í dag ákvörðun um að nota ekki framar plastpoka þegar ég fer í búðina. Í staðinn ætla ég að fá mér taupoka og nota hann aftur og aftur. Já þið megið gera grín af mér, en þó með einu skilyrði, lesið þetta fyrst:
Þetta er hluti af vaxandi umhverfismeðvitund minni. Ég fer með alla hluti í endurvinnslu sem boðið er upp á að endurvinna, t.d. dósir, plast- og glerflöskur, mjólkurfernur, pappaumbúðir, pappír og fleira. Þar sem ég fer ekki með plastpoka í endurvinnslu þá ætla ég að taka þá burt af sorp-listanum mínum.
Vitið þið hvað tár hafmeyjunnar eru?
Þetta eru pínulitlar plastkúlur sem finna má núna í hafinu í skrilljónavís, sérstaklega í kringum vestrænar iðnaðarþjóðir og þar sem hafstraumar hafa borið þær. Þessar kúlur eru á stærð við hrogn og eru því mjög girnilegar útlits fyrir fugla og fiska af ýmsum tegundum. Þær enda því í maga ýmis konar sjávardýra, og valda þeim þannig ómældum þjáningum og oft dauða.
Þessi fugl hefur étið plastklumpa af ýmsum toga. Maður fær hreinlega verk í magann af að sjá þetta.
Þorrinn af þessu plasti kemur frá:
1. Einnotaumbúðum vestrænna þjóðfélaga 2. Veiðarfæra sem hafa tapast 3. Annað, hvað? Einn bjartan morgun í Febrúar 2004 varð skipstjórinn á könnunarskipinu Alguita var við eyju þar sem engin eyja átti að vera. Þessi fljótandi eyja var úr plastpokum. Sex milljónum þeirra, samkvæmt dagbókum skipsins sem tapaði þeim. Það átti að flytja þá til að nota á Taco Bell skyndibitastöðum í Bandaríkjunum. Þeir höfðu safnast saman í eina stóra klessu u.þ.b. eitt þúsund sjómílum utan við Kalíforníuströnd. Þessi eyja hafði myndast beint undir risavöxnu "H" á veðurkortum veðurfræðinga.
Ég veit ekki hvernig þetta kemst í hafið. En það gerist samt. Ég er ekki að segja að við Íslendingar fleigjum þessu í hafið, nema þá kannski veiðarfærunum sem tapast óviljandi. Samkvæmt því sem ég best veit þá urðum við okkar almenna rusl, þar á meðal plastpoka.
Það er því nokkuð ljóst að þó svo að við hættum að nota plastpoka í búðum þá hverfur þessi vandi ekki. En það gerist þó eitt: Við höfum þá stigið einu hænuskrefi nær því að vera í sátt við náttúruna. Margt smátt gerir eitt stórt. Ef við náum hér á Íslandi að vera nokkurn veginn í sátt við náttúruna þá erum við að sýna öðrum þjóðum gott fordæmi. Og við getum bent á þau og sagt: Lítið á okkur, þetta gátum við, gerið þið hið sama.
Að lokum:
Þegar hægt verður að fjárfesta í vetnisbíl mun ég stökkva á einn slíkan. Ég hvet ykkur til þess að gera það líka. Vetni er the ultimate fuel!
Jæja 20 dagar síðan eitthvað var skrifað hingað inn!!
Ég ætlaði nú alltaf að koma með ferðasögur frá þýskalandi og Prag en hef ekki haft mikinn tíma í það..
Ætla hins vegar að setja inn eina mynd frá Októberfestinu sem segir meira en mörg orð. Stemmningin þarna var ólýsanleg!! Hef aldrei kynnst öðru eins, þúsundir manna að drekka öl og syngja...
Á þessari mynd var stutt í að ég pantaði mér einn líter af vatni til þess að lognast ekki útaf um miðjan dag....
Já já en eru ekki allir hressir bara... spurning hvort við ættum ekki að reyna að fara að hittast fljótlega og borða hangikjet og kartöflur!!!