miðvikudagur, febrúar 12, 2003
Hvaða hvaða Doddi.....þú þarft ekki að stroka út greinina þína út þótt við höfum ekki verið sammála þér. Þín skoðun er bara öðurvísi.
posted by Hrafnkell |
22:30
Ég stalst til að horfa á þáttinn "Viltu læra íslensku" (6:11), sem var núna rétt áðan á stöð eitt, svona rétt fyrir svefninn. Það veitir ekki af svoleiðis enda er maður hrapalegur í íslenskunni....:) Þetta var gjörsamlega fyrir neðan allar hellur. Það var einhver illa leikinn söguþráður í honum inn á milli þess sem kennslukona skrifaði á töflu og kenndi litlum hóp af fullorðnum útlendingum. Ég veit ekki hvort þetta átti að vera fyndið en hún talaði við fólkið eins og það væri fimm ára gamalt. Þetta var langt fyrir neðan virðingu þeirra og ætlaðra áhorfenda - útlendinga sem eru sestir hér að á Fróni, margir hverjir við erfiðar aðstæður og bágborinn efnahagsbakgrunn. Ég efa það að þátturinn sé ætlaður börnum, því að ef svo er þá er þetta í fyrsta skipti sem ég sé barnaefni sýnt klukkan tólf á miðnætti. Þátturinn fjallaði um sjúkrahús og kennd voru orð sem koma sjúkrahúsum við. Kennslukonan útskýrði orðin ekki aðeins með tilliti til málsskilnings heldur útskýrði hún líka hvað viðkomandi hlutir væru svona eins og fólkið vissi ekki hvað læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkrabílar væru. T.d. útskýrði hún með barnalegum tón að í skurðstofunni "væri skorið og saumað og mikið blóð" (lék lækni að sauma). Ef ég væri útlendingur sem væri sestur að á Íslandi, kannski búinn að læra læknisfræði eða sagnfræði eða eitthvað úti í Serbíu og væri svo settur í svona kennslu þá myndi ég æla framan í liðið. Það er ekki annað en hægt að dást að þessu fólki fyrir að geta þolað þetta. Það virðist alltaf vera eins þegar kennt er nýtt tungumál, fólkinu er kennt eins og það sé fimm ára. Ég gleymi t.d. ekki þegar ég var sendur á enskunámskeið einu sinni hvað mér fannst þetta barnalegt og asnalegt. Ég var samt sem áður ekki nema tíu ára gamall. Það var sama ár og "Spaceballs" var í bíó........... "English lesson, chapter one. Listen. Keli is currently on a trip to the United States. He participates in gangb......"
posted by Doddi |
01:37
mánudagur, febrúar 10, 2003
Hönnunarkeppnin
Hönnunarkeppnin var meiriháttar skemmtun - ég hef sjaldan hlegið jafn mikið. Fyndnast af öllu var fyrsta tækið, en það fór af stað stuttu eftir mjög svo formlega ræðu Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra. Salur eitt í Háskólabíó var fullur út úr dyrum og þarna voru sjónvarpstökuvélar og auglýsingaskilti og að sjálfsögðu Richterinn úr Nýjasta Tækni og Vísindi. Örugglega tuttugu tæki voru þarna og ég ætla að segja frá uppáhalds tækjunum mínum:
1. Allir biðu í ofvæni eftir fyrsta tækinu. Eigendur þess voru talsvert stressaðir og lýstu í grófum dráttum hvað tækið átti að gera. Þetta var bílklumpur aðallega úr tré og úr honum héngu alls kyns bandspottar, trissur og vírar - þeir höfðu augljóslega lagt mikla vinnu í þetta. Tækið skaut fyrst út úr sér einhverjum hlut sem átti að dragast inn og fella hlerann en það virkaði ekki og í staðinn felldi einn keppenda hann sjálfur með höndunum. Tækið rauk síðan af stað allt of hratt og dúndraðist á dósina og kúlurnar hentust út um allt. Salurinn rifnaði af hlátri og ég hló svo mikið að ég táraðist. Ég veit ekki alveg hvað þeir voru að hugsa.
2. Þetta tæki, sem var á þremur hjólum og alls kyns víra út um allt var (LOL) með einhverja sveigða stöng sem átti að skjóta krók yfir hlerann en virkaði ekki neitt.
3. Þetta tæki átti að vera með svakalegri stýringu sem átti að beina tækinu rétta leið. Þeir lýstu virkni hennar nokkuð vel. En síðan rauk tækið af stað með svo miklum krafti að þeir gátu ekki einu sinni stoppað það. Það spólaði út um allt og þeyttist fram hjá dósinni og kastaðist svo út af brautinni (lol). Salurinn sprakk. Garðar dó svoleiðis af hlátri að ég hef sjaldan heyrt annað eins.
4. Hjá liðinu sem við héldum með gekk allt á afturfótunum. Þeir voru búnir að vinna dag og nótt niðri í skóla í næstum tvær vikur við tækið sitt sem var örtölvustýrt og hvaðeina. Í stofunni sem þeir unnu í var allt í drasli - tugir tómra kókdósa úti um allt, teikningar, mælar, verkfæri, tin, víratætlur og skrúfur úti um alla stofu. Þeir stilltu tækinu upp og fóru svo að græja það til. Einn þeirra fékk rafstuð þegar hann var að eiga við það og svo gerðist ekkert þegar þeir kveiktu á því. Drifið var farið og örtölvan steikt. Tveggja vikna látlaus vinna farin í vaskinn. Í seinni tilrauninni hjá þeim ætluðu þeir að sýna búnaðinn í tækinu en ekkert virkaði rétt...... vá hvað ég fann til með þeim.
5. Skriðdreki á litlum beltum sem var svo kraftlaus að það þurfti að ýta honum áfram svo hann kæmist upp brekkurnar.
6. Tæki sem gleypti kúlurnar og svo gerðist ekkert meir. Keppandi þurfti síðan að hrista tækið eins og sparibauk til að ná kúlunum úr. Mikill hlátur.
7. Tæki sem náði upp kúlunum en krassaði síðan á hindranirnar með allt of miklum hraða, kúlur köstuðust út um allt og tækið endaði ofan á dósinni í einni hrúgu.
8. Þessu tæki þurfti að fylgja í gegnum alla þrautina og aðstoða við öll verkefnin, t.d. hella kúlunum ofan í það, hjálpa yfir hindranirnar, stoppa það við gatið og losa svo kúlurnar handvirkt hahahahhahahahahahahhaha þvílíkt tæki.
9. Tæki með einhverjum voðalegum gripörmum sem gátu síðan ekki tekið upp dósina heldur misstu hana bara.
10. Þessi keppandi var svo lengi að setja tækið upp að salurinn sofnaði. Vefja upp bandspottum, stilla þetta og stilla hitt í þrúgandi þögn og loks þegar dómnefndin rak hann til að fara af stað þá gerðist ekkert.
11. Sverrir vinur Begga var í þessu liði og í seinni umferðinni stóð tækið sig ágætlega. Þeir voru bara óheppnir og hittu ekki almennilega á gatið (hljómar kunnulega).
Sigurvegari keppninnar er nemandi í lyfjafræði. Tækið hans fór alla leið og kom flestum kúlum ofan í. Það var ótrúlegt hvað tækið vann hratt, þeyttist í gegnum þrautina á no-time. Mig grunar samt að hann hafi stólað dálítið á heppni. Svo voru fullt af öðrum kostulegum tækjum, en ég ætla að hætta núna þar sem þetta er orðið allt of langt.
posted by Doddi |
22:47Fréttir frá USA Voðalega er lítið skrifað þessa dagana á bloggið. Ég ætla aðeins að bæta úr því. Um helgina var ég að horfa á MetRx World strongest man og getiði hvað. Haldiði að ég hafi ekki séð félaga minn Jón Valgeir Williams, a.k.a Jón Hamar vera í keppninnii og standa sig bara þokkalega. Hann komst ekki áfram upp úr sínum riðli en það kemur bara á næsta ári. Eg kynntist Jóni í körfubolta og spiluðum við saman í gullaldarliði Fylkis fyrir nokkrum árum sem Sigurgeir hluti af. Því miður fóru allir sína leið og á endanum datt karfan niður hjá Fylki enda stóð hún ekki undir kostnaði.
NBA All-Star helgin var um helgina og þvílík og önnur eins skemmtum. Troðslukeppnin var GEÐVEIK þið verðið að sjá þetta. Þó svo að ég sé nokkuð vissum að Hilmar og Sigurgeir séu þeir einu sem hafa áhuga á þessu þá verð ég að segja að antisportistar hefðu haft gaman að þessum troðslum líka. Leikurinn sjálfur var hin besta skemmtun og uppáhaldið mitt hann Michael Jordan var heiðraður í hálfleik enda var þetta síðasti stjörnuleikurinn hans.
Á laugardaginn var svona lokahóf haldið hjá fótboltaliðinu með mat og highlights frá síðasta tímabili sýnt á videoi. Allir sem útskrifast í vor þurftu að halda ræðu fyrir framan allt pakkið sem ég var ekkert búinn að unidrbúa að viti nema það að fá mér nokkra bjóra til að vera ekki alveg að deyja úr stressi. Það gekk bara ágætlega og var hlegið að brandörunum mínum (úff sem betur fer). Í lokin var ég þess heiðurs aðnjótandi að vera valinn MVP (most valuable player) fyrir síðasta ár. Eftir hófið fóru útskriftaraðallinn út með þjálfurunum og voru allar veitingar í boði þeirra og djammað var frameftir nóttu.
Fleira var það ekki í bili, en hvernig væri að þið settuð eitthvað inn hérna......það vantar fréttir fyrir ameríkanann sem veit ekkert hvað er að gerast merkilegt heima á Fróni. Og ef það er eitthvað sem þið viljið ekki að komi fram hér á síðunni, sendið mér þá allavega e-mail. Pick it up boys.
p.s hvernig setur maður myndir inn á síðuna?
posted by Hrafnkell |
20:52