miðvikudagur, janúar 28, 2004
Gímaldið í Bláfjöllum
Það hefur lengi verið talað um að í Bláfjöllum væri að finna einhvers staðar botnlaust gímald, gríðarlega djúpt og mikið, sem á að liggja langt niður í iður jarðar. Göngufólk hefur einstaka sinnum rambað á þetta fyribrigði fyrir tilviljun og orðið steinhissa þegar fyrir þeim blasir svört og hrikalega djúp hola sem virðist ekki enda neins staðar. Sagan segir að skíðagöngufólk hafi eitt sinn leitað sér að heppilegum hvíldarstað til að drekka súkkulaði sitt og hafi fundið þessa þægilegu laut ofan á litlum tindi einhvers staðar í Bláfjöllum. Lautin var skjólgóð og þakin snjó, kjörinn staður til þess að setjast niður og slaka á. Fólkið snæddi nestið sitt í ró og næði, en hafði ekki minnstu hugmynd um hið botnlausa gímald sem var undir þunnu snjólaginu sem það sat á.
Lengi vel vissu fáir um þetta gat og enn færri vissu hvar það var að finna, en núna vita menn mun meira um það. Þetta gímald heitir nú Þríhnúkahellir og er í austasta hnúknum af þremur litlum hnúkum sem standa upp úr fjallinu talsvert vestan við Bláfjallasvæðið. Hópi manna tókst fyrir nokkrum árum að síga ofan í hellinn með erfiðismunum og rannsaka hann að einhverju leyti. Sé steini kastað ofan í heyrist ekkert nema tóm þögnin. Það er ekki skrýtið því hann er u.þ.b. 120 m djúpur, sem samsvarar, hvorki meira né minna, þriggja hæða blokk með Hallgrímskirkju ofan á. Það reynist því mjög erfitt að síga ofan í hann og það hefur aðeins verið hægt með nýjasta útbúnaði. Það kemur svo mikill snúningur á reipið að menn geta hreinlega misst meðvitund á leiðinni niður og gamaldags reipi vefjast bara í sundur. Þetta leystu menn að einhverju leiti í þessari nýlegu svaðilför með því að festa reipið hér og þar í klettavegginn, en það reyndist samt erfitt, því hellirinn víkkar eftir því sem neðar dregur, líkt og kókflaska. Leiðangursmenn fundu nokkra ganga sem lágu neðar inn í jörðina en komust síðan að því að ekki var unnt að komast inn í hellinn neðan frá.
Þetta er nú allt gott og blessað, og ljóst er að þessi glæsilegi hellir mun fá að vera í friði og verður hvorki angraður né truflaður í bráð. Eða hvað????
Núna um daginn heyrði ég nefnilega dálítið magnað. Ég heyrði að yfirvöld hygðust sprengja eða bora leið inn í hellinn neðan frá, til þess að feitir og latir spekúlantar gætu tekið með sér popp og kók og komist inn í hellinn og skoðað hann að innan. Við vitum öll hvað þetta þýðir. Menn munu traðka hann niður og valda skemmdum í honum eins og í öllum öðrum hellum sem menn hafa komist í. Ómetanlegir dropasteinar og hraunmyndanir munu sitja á arinhillum ofdekraðra manna úti í bæ.
Ég veit ekki með ykkur, en fyrir mér eru glæsileg náttúrufyrirbrigði aðeins glæsileg ef þau byggja ennþá yfir snert af leyndardómi. Að leggja rauðan dregil að þeim og setja upp afmarkaðann stíg með handriði er nokkuð sem hreinlega virkar bara ekki.
Finnst mér hellarnir miklu á Spáni merkilegir? Já að vissu leyti. En ég hef ekki minnsta áhuga á að sjá þá núna. Þeir eru of "mataðir" í mann. Það er hægt að labba þangað niður þar til gerðar tröppur umluktar afmörkuðum handriðum með leiðsögumanni og skoða, en er það eins og ég vil sjá það? Nei. Frekar vil ég ekki komast þangað og vita bara frekar af þeim, og láta ímyndunaraflið fylla inn í, heldur en að vera leiddur þangað af leiðsögumanni sem matar í mann upplýsingum. Væri Mount Everest jafn heillandi ef menn gætu farið þangað upp í rúllustiga? Af sömu ástæðu finnst mér yfirleitt frat að fara í dýragarða. Að sjá dýrin lokuð inni í búri okkur til áhorfs og skemmtunar er nokkuð sem gæti fengið mig til að æla. Eins og ísbjörninn í dýragarðinum í Kaupmannahöfn, sem venulega er að drepast úr hita á norðupólnum, og þarf að hýrast þar í 30°C hita á sumrin.
Þríhnúkahellir er ótrúlegt meistaraverk náttúru okkar. Ég hef margoft gengið upp að honum og horft ofan í hann. Ég gæfi mjög mikið til þess að sjá hann að innan, en ekki á þennan hátt. Það er hreinlega rangt að gera þetta, og ég vona af öllu mínu hjarta að þessir kjánar vakni til lífsins og hætti við þessi áform.
Þessi mynd var tekin af botni hellisins í leiðangrinum 2002. Það er ansi langt upp í munnann eins og sjá má, sem er þó 7-8 m í þvermál.