miðvikudagur, júlí 13, 2005
Vísindahornið - The radioactive boyscout
(VARÚÐ! NÖRDAEFNI!!!)
Flestir krakkar hafa einhvers konar áhugamál - íþróttir, safna frímerkjum eða spila töluleiki. En David Hahn, sem bjó nálægt Detroit í Michigan í Bandaríkjunum, hafði sérstakt áhugamál: Efnafræði. Reyndar var efnafræðiáhuginn svo mikill að hann reyndi að búa til kjarnakljúf.
Þegar hann var tíu ára var honum gefin bók sem hét "The Golden Book of Chemistry Experiments". Þegar hann var 12 ára var hann búinn að fullesa og skilja háskólaefnafræðibækur pabba síns og þegar hann var 14 ára hafði honum tekist að búa til nítróglyserín. Pabba hans leist nú ekki á blikuna og ákvað að senda hann á svokallað "Eagle Scout" námskeið svo hann fengi róandi áhrif. Á námskeiðinu fengu menn 21 sérprófsmerki, t.d. fyrsta hjálp, sjálfstjórn, viðskipti og margt fleira. Nokkur þeirra fengu nemendur að velja sjálfir og David valdi sér, já þið giskuðuð rétt, atómeðlisfræði.
Atóm hafa kjarna með póstíft hlöðnum róteindum og hlutlausum nifteindum. Sum hinna stærri atóma (t.d. úraníum) eru með óstöðugan kjarna. Ef nifteind lendir á þessum kjarna, þá skiptist hann í tvo hluta og eina eða tvær nifteindir, og mikil orka losnar úr læðingi.
Þannig að David byrjaði að búa til nifteindabyssu. Hann þóttist vera eðlisfræðikennari, og fékk sérfræðihjálp hjá iðnfyrirtækjum, "The American Nuclear society" og "Nuclear Regulatory Commission". Hann komst að því að það var hægt að ná geislavirku Americium-241 úr venjulegum reykskynjurum. Hann keypti því 100 ónýta reykskynjara á 1 dollara stykkið. Honum var sagt nákvæmlega hvar efnið var í reykskynjaranum og hvernig ætti að ná því út. Hann setti þessa pínulitlu hrúgu af Americium-241 í blýhylki og boraði á það lítið gat. Þegar americium hrörnar myndast svonefndar a-eindir. Þegar a-eind lendir á áli sleppir álið frá sér nifteindum. Hann setti því álstrimil fyrir framan holuna á blýhylkinu þar sem a-eindirnar komu út og bingó - hann var kominn með nifteindabyssu.
Hann hafði komist að því að stútar í gaslömpum væru þaktir thorium-232 (því það er hitaþolið). Hann vissi líka að ef maður setur thorium-232 í nifteindaskothríð þá breytist það í úraníum-233. Hann keypti því þúsundir af gaslampastútum og breytti þeim í thorium-ösku með heitum gasloga. En það dugði ekki til. Nifteindabyssan hans var ekki nógu öflug til þess að breyta thorium-232 í úraníum-233.
Time for plan B. Radíum gefur frá sér alfa-agnir, og honum hafði verið sagt að ef maður plaffar beryllium með alfa-eindum þá fær maður gríðarlegt magn af nifteindum. En hvernig kæmist hann í radíum? Fram að 7. áratugnum var radíum í málningu á klukkum sem glóa í myrkri og líka á bíla- og flugvélastjórntækjum svo að þau glói í myrkri. Þannig að hann hóf hið hæga ferli að ráfa um rusl- og antíkbúðir og skrapa radíum-málningu af gömlum klukkum og tækjum. Dag einn varð hann heppinn og geiger-mælirinn hans rauk í loft upp. Hann fann gamla klukku og inni í henni var glas með radíum-málningu. Hann keypti klukkuna á 20 dollara og hirti málninguna.
Hann setti radíumið inn í blýhylkið og setti núna beryllíum fyrir gatið. Hann notaði úraníum-grýti (sem hann hafði fengið frá birgðasala sem hann þekkti) sem skotmark. En honum mistókst aftur. Nifteindirnar fóru of hratt (u.þ.b. 27.000.000 km/klst). Hann hægði því á þeim með því að láta þær fara í gegnum tritium (sem hann skrapaði af byssu sem lýsir í myrkri og bogamiði). Úraníumið hans varð því meira og meira geislavirkt.
Þegar hingað var komið við sögu var David Hahn 17 ára. Hann ákvað þá að gera þetta almennilega. Hann blandaði radíuminu sínu með americium og áli, vafði þessu í álpappír og festi síðan thorium og úraníum utan um þetta allt - og límdi klumpinn saman með límbandi. Loksins heppnaðist þetta. Þessi hryllilega kúla varð meira og meira geislavirk með hverjum deginum. En þegar hann gat mælt geislavirkni frá þessu í 5 húsa fjarlægð varð hann hræddur, og fór að taka þetta í sundur aftur.
Klukkan 2.40 þann 31. ágúst 1994 var hringt á lögregluna því ungur maður var að sýsla við eitthvað grunsamlegt nálægt bíl. Hún mætti á staðinn og David sagði lögreglunni að gæta sín á verkfæratöskunni hans, því hún væri geislavirk. Fljótlega voru mættir á staðinn menn í geislabúningum að rífa niður geislavirka húsið hans með keðjusögum. Öllum hlutum hússins var komið fyrir í 200 lítra geislatunnum sem var farið með í geymslu fyrir kjarnorkuúrang. Hreinsunin kostaði 120.000 dollara, en forðaði þó hinum 40.000 íbúum frá skaða.
posted by Doddi |
14:32