föstudagur, desember 02, 2005
Dreginn á bakinu upp fjall
Ég hélt að það væri nú ekkert mál að fara á snjóbretti. Ég og Marta sæta, vinnufélagi minn, fórum í Hlíðarfjall á Akureyri í gær. Ég prófaði þar í fyrsta skipti að fara á snjóbretti, og gekk það brösulega vægast sagt. Ég datt oftar en ég get munað, og mátti sjá ansi falleg för eftir mig í brekkunum.
Ég hélt að það væri nú ekkert mál að fara í stólalyftu á bretti. Það gekk nú alveg ágætlega, nema þegar við þurftum að fara úr henni. Þegar maður fer úr stólnum kemur stutt en brött brekka alveg um leið, semsagt leiðin úr lyftunni. Þar sem maður hafði bara aðra löppina í brettinu var nánast ómögulegt fyrir okkur að komast úr stólnum án þess að detta. Við létum okkur bara gossa bjargarlaust niður þennan slakka og flugum niður eins og stjórnlaus reköld. Eitt skiptið hallaði ég mér óvart of mikið fram þannig að ég kastaðist fram fyrir mig. Marta hrúgaðist niður líka, stjórnlaust. Lyftuvörðurinn kom hlaupandi út til að athuga hvort það væri í lagi með okkur.
Ég sagði kokhraustur að það væri ekki hægt að fótbrotna á bretti, því lappirnar væru fastar saman. Ég komst fljótlega að því að svo var ekki. Ég datt aftur á bak og snerist, en brettið ýttist fram, þannig að allt álagið lagðist á annan fótlegginn og ég hélt hann væri að fara að brotna.
Ég hélt að það væri nú ekkert mál að fara upp diskalyftu á bretti. Annað kom hins vegar í ljós. Mig langaði svo að komast upp á efsta svæðið, en það verður að fara þangað í diskalyftu. Eftir svona 40 misheppnaðar tilraunir ákvað ég að eina leiðin væri að láta lyftuna draga mig upp fjallið á bakinu. Sem betur fer leit ég við þegar hausinn á mér nálgaðist grjótharðan ferkantaðan ísklump á stærð við sjónvarp. Ég hefði steinrotast ef ég hefði ekki séð hann og náð að vippa mér upp og ofan á hann. Í staðinn rann ég yfir hann á hryggnum, líklega það alversta baknudd sem ég hef fengið.
Ég tók ekki eftir því fyrr en of seint að lyftan var búin að draga mig langt fyrir ofan þar sem maður á að fara út. Ég heyrði hlátur útundan mér, líklega þótti einhverjum það skoplegt að sjá brettamann dragast á bakinu fram hjá staðnum þar sem menn sleppa og hverfa eitthvert upp í brekku inn í myrkrið.
posted by Doddi |
18:08
mánudagur, nóvember 28, 2005
Brandari dagsins
Í heimsókn sinni á geðveikrahælið spurði einn gesturinn deildarstjórann hvaða aðferð læknarnir beittu til að ákvarða hvort leggja ætti sjúkling inn á hælið eður ei.
,,Sko," sagði deildarstjórinn, ,,við fyllum baðkar af vatni. Svo bjóðum við sjúklingnum teskeið, tebolla eða fötu til að tæma baðkarið."
,,Aaa, ég skil," sagði gesturinn, ,,heilbrigð manneskja mundi þá velja fötuna, þar sem hún er stærri en teskeiðin og tebollinn og auðveldast að tæma baðkarið þannig!"
,,Nei," sagði deildarstjórinn, ,,heilbrigð manneskja mundi taka tappann úr.
Má bjóða þér herbergi með eða án glugga?
COME ON FULHAM, COME ON FULHAM, COME ON FULHAM
posted by Hrafnkell |
13:34