Ég er kominn aftur í siðmenninguna eftir tveggja vikna vinnu við húsið í Aðalvík.
Að komast á staðinn með allt þetta drasl var frekar mikið maus. Bíllinn var svo troðinn að það var eiginlega kraftaverk að hann skuli ekki hafa skrapast eftir götunni.
Við gistum eina nótt á Ísafirði og lögðum síðan af stað frá Bolungarvík á sunnudegi. Jú, það eru ýmsar leiðir til að komast til Aðalvíkur: Sigla, ganga eða fljúga og lenda í fjörunni eða á herflugvelli (já eða í fallhlíf), en við völdum að fara með flutningabátinum Ramóna, sem Friðrik Jóhannsson úr Grunnavík er með á snærum sínum. Hörku skipper hann Friggi og með frábæra þjónustu.
Þegar í víkina var komið var hafist handa við að koma dótinu í land. Það þurfti að hífa timbrið í gúmmíbát sem fór með það í land. Járnið og gluggarnir komu síðan nokkrum dögum seinna með honum Nilla mági mínum.
Eftir þrotlausa undirbúningsvinnu kom smiðurinn síðan í seinni vikunni með honum Erni Ingólfssyni flugmanni.
Við grófum og steyptum tíu 1,5 m steypustöpla undir húsið, rifum gamla járnið af hliðinni sem átti eftir að laga, skiptum um fúna klæðningu, settum nýja glugga í og að lokum nýtt aluzink járn á hliðina.
Það gafst lítill tími til aflögu fyrir annað en vinnu, en við náðum þó að sækja hvalbein út í Rekavík og renna fyrir silungi. Fórum tvær ferðir og fengum fimmtán bleikjur og einn urriða í soðið. Það kom hrefna í heimsókn inn á víkina en við reyndum ekki að veiða hana að þessu sinni. Ég gleymdi að taka skutulinn með sko.
Þessi hlussu hvalbein eru um 1,5 metri á lengd og örugglega 10-15 kg hvert.
Þegar ég var búinn að burðast með fjögur svona hvalbein á öxlunum um fimm kílómetra leið gafst ég upp. Ég henti þeim frá mér, staulaðist heim og sótti fjórhjólið.
En við erum ánægðir með afraksturinn og hlökkum til að takast á við næstu ferð. Þá munum við taka húsið í gegn að innan....